Inngangur
Skólahverfi Brúarásskóla er skilgreint sem fyrrum Norður-Hérað og eiga börn á grunnskólaaldri þar forgang að skólavist í skólanum, en að öðru leyti er sveigjanlegt skólaval í sveitarfélaginu. Starfsemin fer fram í Brúarásskóla og er hann samrekinn grunn- og leikskóli, sundkennslan fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum. Nemendur í Brúarásskóla eru 48, þar af eru 39 grunnskólanemendur og koma 25 þeirra annars staðar frá, þ.e. Egilsstöðum, Hjaltastaðaþinghá og Fellum. Skólinn hefur orðið var við vaxandi áhuga íbúa í þéttbýli á að nemendur þaðan stundi hér nám og tekur því fagnandi. Allir nemendur koma með skólaakstri í skólann en sex bílstjórar starfa við þann akstur að jafnaði hvern dag. Skólaárinu er skipt í þrjár annir með fimm nemendaviðtölum, hópaskiptingar eru mismunandi eftir árgöngum.
Hlutverk
Í Brúarásskóla er nemandinn í fyrirrúmi, starfsfólk leggur sig fram um að hlúa að hverjum og einum eins og kostur er, búa viðkomandi undir það að geta orðið nýtur og sáttur þjóðfélagsþegn. Nám á eigin forsendum, einstaklings- eða hópmiðað eftir því hvað við á hverju sinni, er styrkur skólans sem og sveigjanleiki og gildi “gamla” sveitaskólans.
Helstu viðfangsefni – eða áherslur í starfi skólans
- einstaklingsmiðað nám með sérstakri áherslu á nærsamfélagið.
- skólastarf markast af markmiðum Lýðheilsustöðvar, skólinn hefur verið Grænfánaskóli í fjögur ár, og mótast skólastarfið mikið af því verkefni.
- dýrahús hefur verið við skólann síðustu sjö ár með nagdýrum og hænum.
- tölvulæsi sett á oddinn, unnið mikið með spjaldtölvur.
- gott samstarf skólans við tónskóla - ríflega 80% nemenda eru í tónlistarnámi. Nemendur sækja nám samhliða öðru námi og mikil samvinna er í kringum hátíðir.
- dagvistun fyrir yngri nemendur með starfsmanni þar sem áherslan er á leik og hreyfingu.
- áhersla á val nemenda.
- starfstengt nám í 8. – 10. b. – öflug starfsfræðsla á vinnustöðum.
- enskukennsla frá og með 1. b.
- samþætting ólíkra námsgreina við list- og verkgreinar.
- ódýrt og gott skólamötuneyti (ávextir á morgnana, hádegismatur og síðdegiskaffi).
- áhersla á heimilislegan og notalegan anda í skólanum.
- opin stundatafla þar sem eldri nemenendur stjórna skipulagi sínu mikið sjálfir, unnið að mörgum þemaverkefnum yfir árið og sjónum beint að viðfangsefnum frekar en fögum.
- áhersla á nýsköpun m.a. í gegnum smíðakennslu. Tveir nýsköpunardagar á skólaári þar sem hugmyndir eru fullmótaðar, þátttaka í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og Legó-keppninni liður í nýsköpunarnáminu.
- unnið með agastjórnun í anda Brúarskóla þar sem unnið er sérstaklega gegn ofbeldi og með hvatningarkerfum fyrir einstaklinga með hegðunarerfiðleika.
- hjartaásinn fá nemendur með sér heim aðra hverja viku þar sem umsjónarkennari skrifar jákvæð umæli um nemendann.
- þátttaka í vinaliðaverkefni sem felur í sér skipulag á útifrímínútum nemenda þannig að alltaf séu einhverjir leikir í boði. Nemendur kjósa sér vinaliða sem vinna að verkefninu.
- útinámsvika er allaf fyrsta vikan í hverjum mánuði.
- gott samstarf við foreldrafélagið. Árlega farið í menningarferð til Akureyrar þar sem söfn eru skoðuð, farið í keilu og á skauta ásamt leikhúsi og bíói eftir því sem kostur er.
- skólinn er í vinasambandi við grunnskólann í Fuglafirði í Færeyjum.
Starfsmannamál
Við Brúarásskóla starfa skólastjóri og kennarar í sex stöðugildum og einnig starfar, annað starfsfólk, þ.e. skólaliðar, stuðningsfulltrúar, og matráður og aðstoð í eldhúsi eru í um 5,5 stöðugildum. Kennsla grunnskólans er mönnuð réttindakennurum bæði í leik- og grunnskóla.
Meginmarkmið með rekstri
Þriggja ára áætlun
Áfram verður haldið á þeirri braut að styrkja Brúarásskóla sem áhugaverðan valkost fyrir foreldra í ljósi þess að þeir eiga sveigjanlegt val um skóla fyrir börn sín. Þannig verður haldið markvisst áfram vinnu við að styrkja faglega innviði skólans. Húsnæði skólans er afar gott á margan hátt og rúmar auðveldlega mun fleiri nemendur en nú stunda hér nám. Áfram verða byggðar upp list- og verkgreinar, unnið við markmið Lýðheilsustöðvar um hreyfingu og líkamlegt sem andlegt heilbrigði sem og áhersla lögð á umhverfisvernd og nýsköpun. Innleiðing nýrrar aðalnámskrár er vel á veg komin henni verður haldiði áfram.
Helstu áform 2016-17
Í vetur munum við vinna áfram í grænfánaverkefninu. Við munum senda eitt lið í Legó-keppnina. Við höldum áfram innleiðingu nýrrar aðalnámskrár og vinnu skólanámskrár fyrir skólann. Þróunarverkefnið Brúin heldur áfram á sínu öðru ári. Skólinn tekur þátt í verkefninu "Bættur námsárangur" á Austurlandi ásamt öllum skólum Austurlands þar sem lögð er áhersla á læsi og talnaskilning, í vetur byrjum við að innleiða verkefnið Orð af orði og beinum sjónum okkar sérstaklega að stærðfræðinni. Áfram haldið með Byrjendalæsið og það fest í sessi.