Forvarnarstefna Brúarásskóla byggir á Aðalnámskrá grunnskóla en þar segir að vinna skuli að forvörnum og heilsueflingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans. Einn veigamesti þáttur í forvarnarvinnu skólans er fræðsla og samvinna við foreldra. Tilgangur stefnunnar er meðal annars að ýta undir sjálfsaga og þá tilfinningu að hver og einn beri ábyrgð á eigin líðan og hegðun, viðurkenni mistök og læri að leiðrétta þau á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þá er lögð rík áhersla á virðingu gagnvart ólíkum einstaklingum og að hver og einn fái að njóta sín á eigin forsendum.
Markmið með forvörnum er að:
Efla virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu sínu.
Efla og styrkja nemendur í eigin námi á þeirra forsendum.
Stuðla að heilbrigðum lífsháttum.
Stuðla að jákvæðri sjálfsmynd og lífssýn.
Styrkja félagsfærni.
Stuðla að öflugu foreldrasamstarfi.
Leiðir að markmiðum:
Fræðsla til foreldra/forráðamanna þar sem meðal annars er lögð áhersla á geðrækt (tilfinningalega heilsu og vellíðan), útivistartíma, ábyrga tölvunotkun, hegðun, viðhorf, hollustu og heilbrigði, tóbaks- og vímuefnavarnir og fordóma.
Stuðla og hvetja til eftirlits og eftirfylgni foreldra/forráðamanna varðandi skólagöngu og heimanám.
Hvetja til heilsuræktar, geðræktar og jákvæðs lífsstíls meðal nemenda.
Fræðsla til starfsfólks skólans.
Fræðsla til nemenda skólans samkvæmt forvarnarstefnu skólans.