Nemendur 9. og 10. bekkjar Brúarásskóla í Danmörku
9. og 10. bekkur Brúarásskóla er nýkomin heim úr vel heppnuðu skólaferðalagi til Danmerkur í fylgd Kristínar Högnadóttur umsjónarkennara elsta stigs. Krakkarnir höfðu staðið sig vel í fjáröflunum fyrir ferðalagið með hjálp foreldra sinna undanfarna tvo vetur. Upphaflega var áætlað að fljúga með Niceair frá Akureyri en þau áform urðu að engu þegar fyrirtækið hætti skyndilega starfsemi og fór svo í kjölfarið fram á gjaldþrotaskipti. Þetta var mikið áfall fyrir krakkana og ferðasjóðinn því Niceair endurgreiddi ekki neitt af þeim tæplega 700 þúsund krónum sem greiddar höfðu verið til fyrirtækisins. Hinsvegar hefur á undanförnum vikum komið í ljós að Brúarásskóli á víða góða að. Það er skemmst frá því að segja að ferðasjóðnum hafa borist rausnarleg framlög úr ýmsum áttum og þar má nefna Hlyn Bragason eiganda Sæti ehf, Rótarýklúbbinn á Héraði og Blikkrás ehf á Akureyri. Auk þess gaf ungur maður að nafni Kristján Atli Baldursson ferðasjóðnum 100 pinnaspil sem hægt verður að selja til styrktar ferðasjóðnum. Nú er svo komið að tjónið að stærstum hluta verið bætt og fyrir það var þessum gjafmildu einstaklingum og fyrirtækjum þakkað kærlega á skólaslitum Brúarásskóla. Það er líka gert hér með á heimasíðu skólans því það er okkur ómetanlegt að finna fyrir þessum mikla stuðningi. Takk takk!