Nú er síðasti skóladagurinn fyrir páskafrí að renna sitt skeið. Við starfsfólkið erum þakklát fyrir hve skólastarfið hefur gengið vel undanfarnar vikur þrátt fyrir að ýmsar pestir hafi herjað á okkur og það er í raun ótrúlega mikil gæfa að allir nemendur skólans skuli hafa getað tekið þátt í frábærlega vel heppnaðri árshátíð fyrir réttri viku síðan.
Nú er vorið handan við hornið og það er alltaf tilhlökkunarefni en auk þess er ýmislegt á döfinni sem flokkast getur sem uppbrot á hefðbundnu skólastarfi. Þar ber hæst að við stefnum á að drífa okkur í Akureyrarferðina langþráðu í lok apríl. Við frestuðum henni í janúar vegna samkomutakmarkana en nú er vonandi komin betri tíð með blóm í haga. Stefnt er að því að keyra norður fimmtudagsmorguninn 28. apríl og koma heim seinni part föstudags. Við eigum bókaða gistingu á Backpakers og gert er ráð fyrir að a.m.k annað foreldri fylgi nemendum í 1.-5. bekk í ferðina. Nánara skipulag ferðarinnar verður kynnt þegar nær dregur.
Ég minni að lokum á að fyrsti skóladagurinn eftir páskafrí er þriðjudagurinn 19. apríl og því sögðu vil ég fyrir hönd starfsfólks Brúarásskóla óska ykkur öllum gleðilegra páska.
ÁIA